Guðrún Stephensen Minningargreinar

Guðrún Guðbjörg Stephensen fæddist í Selkirk í Manitoba í Kanada 11. maí 1919. Hún varð bráðkvödd á hjúkrunarheimilinu Eir 17. desember 2003.


Minningargreinar birtar í Morgunblaðinu 

Á vordögum 1965 vandi unglingahópur komur sínar í félagsheimili vestur í bæ. Eitt kvöldið hafði verið skipulagt að stelpurnar kæmu með kökur og strákarnir með gos. Er á hólminn var komið og allt að verða uppdekkað, fínt og klárt kom í ljós að engin voru áhöldin til þess að borða kræsingarnar með. Vandræði. Þá segir Stebbi Páls: "Við náum bara í gaffla í Steinnesið - er ekki einhver á bíl?" Ég var á fjölskyldubílnum og ekið var í Skerjafjörðinn. Þar var dúndrandi unglingapartí hjá einhverjum af hinum systkinunum - þau voru samtals átta - sem þar bjuggu. Sem ég stóð og horfði á Stefán hirða áhöldin úr stóra skápnum í borðstofunni eins og ekkert væri sjálfsagðara og án þess að biðja leyfis kemur kona í sægrænum sloppi gangandi upp stigann frá neðri hæðinni. Ég bjóst við að henni væri nóg boðið, engin svefnró og verið að ræna fjölskyldusilfrinu. "Þetta er mamma," segir Stebbi. Hún heilsaði róleg og vinaleg, fannst greinilega ekkert óvenjulegt við ástandið. Þetta voru mín fyrstu kynni af Guðrúnu Stephensen, sem síðar átti eftir að verða tengdamóðir mín. Og ég átti eftir að komast að því að partí í Steinnesi voru vikulegt ef ekki daglegt brauð og þar var ekki verið að fjargviðrast út af smámunum.

Guðrún og Páll S., tengdapabbi, voru um margt ólík hjón. Þau voru fædd hvort í sínum menningarheiminum. Hún var kanadískur Vestur-Íslendingur, sem fluttist til Íslands 15 ára gömul til að aðlagast kreppuþjóðfélagi millistríðsáranna. Hún lærði til kennara, tók stúdentspróf og fór í framhaldsnám í forskólakennslu í Bandaríkjunum. Ung starfaði hún aðallega á leikskólum og sem kennari síðar þegar hennar stóri hópur var kominn af höndum. Barnabagan og leikurinn, sem ég og mín kynslóð lærðum sem smákrakkar og leikskólabörn læra enn þann dag í dag er hennar innflutningur og lausleg þýðing úr Vesturheimi:

Ein sit ég og sauma.

inní í litlu húsi.

Enginn kemur að sjá mig

nema litla músin.

Hoppaðu upp

og lokaðu augunum.

Bentu í austur,

bentu í vestur

bentu á þann, sem að þér þykir bestur!

Páll S. var hins vegar sveitadrengur norðan úr Húnavatnssýslu, næstelstur 12 systkina, sem barnung misstu föður sinn, og braust á atorkunni til mennta. Hann var ræðinn athafna- og gleðimaður, sem sópaði að. Guðrún talaði hægt, svo hægt, að það tók tíma að átta sig því að hana hafði alls ekki rekið í vörðurnar, þetta var bara hennar talsmáti. Þess utan lá henni mjög lágt rómur. Eftir á að hyggja grunar mann að þetta hafi verið hennar aðferð til þess að ná hlustun. Vonlaust var að yfirgnæfa átta börn og málglaðan bónda. Þau urðu bara að þagna til þess að heyra það sem hún hafði að segja. Raunar gerði hún jafnan það sem hún ætlaði sér, allt svo lítið bar á og með sömu hægðinni. "Gerirðu þér ekki grein fyrir því, að hún Guðrún ræður öllu, sem hún vill ráða?" spurði Óli, bróðir Páls S., hann einhvern tíma. Mér skilst að tengdapabbi, húsbóndinn á sínum bæ, hafi sjaldan orðið jafn hissa en jafnframt gert sér grein fyrir sannleikskorninu í orðum bróðurins.

Guðrún og Páll S. áttu það sameiginlegt að vera listfeng þótt aðstæður byðu lítt upp á að þeir hæfileikar fengju að njóta sín. Bæði voru hagmælt og áttu létt með að slá saman stöku og botna vísur. Guðrún var drátthög og hafði skýra og fallega vesturheimska rithönd. Páll S. var á leikræna sviðinu, hafði gaman af að troða upp og hefði eflaust orðið leikari við aðrar aðstæður og á öðrum tímum. Sem málaflutningsmanni þótti honum miður að á Íslandi væri ekki kviðdómur til þess að flytja mál sín fyrir! Listrænir eiginleikar þeirra hafa erfst til barna og barnabarna en í þeim hópi er fjöldi hæfileikafólks í leik- , mynd- og sönglist.

"Þú verður alltaf stelpan mín!" sagði Guðrún við mig nokkru eftir að leiðir okkar Stefáns skildu eftir langt hjónaband. Það gekk eftir. Þótt samskiptin yrðu strjálli bar aldrei skugga á. Síðast tæpum þremur vikum áður en hún lést kom hún á heimili mitt til þess að vera viðstödd skírn yngsta barnabarns míns og langömmubarns síns. Líkaminn var þá orðinn hrumur, Parkinson-sjúkdómurinn búinn að taka háan toll og sjónin nær farin. En heyrnin var í lagi, hugsunin skýr og voru margir sem áttu við hana notalegt spjall.

Ég þakka kærri tengdamömmu samfylgdina um nær fjögurra áratuga skeið.

Hólmfríður Árnadóttir.

Á áttunda ári flutti ég í Skerjafjörðinn, sem þá var lítið meira en ofvaxið sveitaþorp í jaðri Reykjavíkur. Fljótlega kynntist ég fjölskyldunni í Steinnesi, næsta húsi, og varla var liðinn mánuður áður en við systkinin vorum komin þar inn á gafl, ef svo má segja. Guðrún bjó í Steinnesi með manni sínum Páli S. Pálssyni og fjölskyldan var stór - átta börn á öllum aldri. Var þar stofnað til vináttusambands, sem síðan hefur staðið, og þótt við hittumst ekki nándar nærri nógu oft nú á dögum liggja gagnvegir ávallt til Steinness, sem enn er í eigu fjölskyldunnar.

Það var alltaf ánægjulegt að heimsækja Steinnes. Stórt heimili býður upp á mikla fjölbreytni og ef ein vinkonan var ekki heima, þá var einhver systir hennar örugglega viðlátin. Þannig urðum við allar vinkonur, Þórunn, Sigþrúður, Anna Heiða og stundum Signý, sem þó var aðeins eldri en við smástelpurnar. Seinna meir urðu þeir óaðskiljanlegir Ívar og bróðir minn. Heimilisbragurinn var afar frjálslyndur og víðsýnn. Menn fengu oft að hafa sína hentisemi með hlutina - fólki var treyst, og ekki var allt niðurnjörvað í reglum, þótt stundum kæmi það fyrir að heimilisföðurnum ofbyði anarkíið.

Á þessum árum voru það hins vegar mæðurnar, sem sköpuðu þann bakgrunn, sem börnum þeirra var veittur. Og Guðrún var félagi okkar og barna sinna. Hún gerði ýmislegt sem var óvenjulegt á þessum árum. Hún kenndi ensku í kvöldskóla og stundum tók hún okkur með niður í Lindarbæ. Á meðan hún kenndi enskuna vorum við í rannsóknarleiðöngrum um portin í Lindargötu. Við skruppum líka í Þjóðminjasafnið stundum, enda varð hún seinna gæslukona þar. Guðrún átti margar vinkonur af ýmsu tagi og var í Kvenréttindafélaginu. Það var ótrúlega skemmtilegt og fræðandi að ræða við Guðrúnu, hún var mjög vel lesin kona og á eldri árum var hún að grúska í ýmsum menningarmálum. Sú listræna æð, sem finna má í allri fjölskyldunni frá Steinnesi, átti þar sinn uppruna, næringu og útrás.

Horfi ég til baka koma í hugann ýmiss konar uppátæki hópsins. Þau hljóta að hafa reynt verulega á þolinmæðina. En þolinmæði Guðrúnar virtust lítil takmörk sett. Þegar synirnir vildu breyta bílskúrnum í bíóhús, smíðuðu áhorfendabekki og seldu aðgang að 8 mm kvikmyndasýningum poppaði hún poppkorn, sem síðan var selt í "kvikmyndasalnum". Bílskúrnum var síðan breytt í hesthús og á tímabili voru folöld geymd í garðinum. Túristar fengu að tjalda niðri á túni og Guðrún kom með garðslönguna, svo ekki vantaði þá vatn. Þegar Anna Heiða, dóttir hennar, keypti síðan hina landsfrægu Simmasjoppu lét Guðrún sig ekki muna um að standa þar og selja Skerfirðingum og öðrum Vesturbæingum súkkulaði og brjóstsykur. Þannig varð Guðrún þátttakandi í öllum ævintýrum barna sinna, svo mikill að dæturnar sögðu oft að gamni sínu að mamma þeirra hefði verið fyrsti hippinn á Íslandi.

Eftir að Páll, eiginmaður Guðrúnar, lést seldi hún Steinnes og flutti í minna húsnæði. Eftir sat söknuður og eftirsjá, og í hugann komu ótal myndir frá þeim dögum þegar eitthvert systkinanna var með partí - og hálf Reykjavík mætti. Ekkert varir hins vegar að eilífu og útlegðin frá Steinnesi ekki heldur, því einhverjum árum síðar keypti Ívar, yngsti sonur Guðrúnar, húsið aftur og Steinneslífið gekk í endurnýjun lífdaga.

En því verður mér svo tíðrætt um Steinnes í minningargrein um Guðrúnu? Það er einfaldlega vegna þess að í huganum eru þessar tvær stærðir tengdar í eitt. Og afrek hversdagslífsins er ekki síst fólgið í því að koma átta börnum til manns, og þegar ég segi til manns, þá á ég við það, að blása þeim í brjóst víðsýni, umburðarlyndi og þolinmæði, ásamt góðum skammti af menningu - það er það, sem gerir okkur að mönnum - kemur okkur til manns. Mig langar að lokum að þakka fyrir meira en fjörutíu ára örvandi og skemmtileg kynni. Guð blessi minningu Guðrúnar Stephensen.

Ragnheiður Erla Bjarnadóttir.